Til bakaPrenta
Bæjarráð Garðabæjar - 40. (2188)

Haldinn í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi,
04.11.2025 og hófst hann kl. 08:00
Fundinn sátu: Björg Fenger formaður,
Sigríður Hulda Jónsdóttir varaformaður,
Hrannar Bragi Eyjólfsson aðalmaður,
Þorbjörg Þorvaldsdóttir aðalmaður,
Brynja Dan Gunnarsdóttir aðalmaður,
Rakel Steinberg Sölvadóttir varaáheyrnarfulltrúi,
Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Lúðvík Örn Steinarsson sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, Svanhildur Þengilsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Linda Udengård sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Guðbjörg Brá Gísladóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Ágúst Þór Guðmundsson sviðsstjóri þróunar- og þjónustusviðs, Ásta Sigrún Magnúsdóttir samskiptastjóri.
Fundargerð ritaði: Lúðvík Örn Steinarsson, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2507256 - Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2026 (2026 - 2029)
Á fund bæjarráðs kom Lúðvík Hjalti Jónsson, fjármálastjóri og gerði grein fyrir drögum að áætlun fræðslumála, vegna vinnu að frumvarpi að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2026.

Bæjarstjóri fór almennt yfir meginatriði varðandi vinnu við gerð frumvarps að fjárhagsáætlun 2026 og fór yfir forsendur, framkvæmdayfirlit og gjaldskrár.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu að frumvarpi að fjárhagsáætlun Garðabæjar 2026 (2026-2029) til fyrri umræðu í bæjarstjórn samkvæmt 3.mgr. 62.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. einnig 2.mgr. 40.gr. Samþykkta um stjórn Garðabæjar nr. 1182/2022. Fyrri umræða fer fram í bæjarstjórn fimmtudaginn 6. nóvember 2025.

Lúðvík Hjalti Jónsson, fjármálastjóri, sat fundinn undir þessum lið.
2. 2406836 - Afgreiðsla skipulagsnefndar - Miðbær, svæði I og II, Garðatorg 1, deiliskipulagsbreyting.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar frá fundi 22. október 2025 varðandi tillögu að breytingu deiliskipulags Miðbæjar sem gerir ráð fyrir fjölgun íbúða og aukningu á atvinnurými á lóðinni Garðatorg 1 (A). Einnig er gert ráð fyrir fjölgun fermetra á lóð 5a (H) þar sem gert verður ráð fyrir kjallara og 2.hæð að hluta.
Hámarksfjöldi nýrra íbúða skal vera 40-45 íbúðir og gera skal ráð fyrir einu bílastæði í lokuðum bílakjallara og 0,7 bílastæði í opnum bílakjallara. Fyrir þá fermetra sem bætast við vegna atvinnurýma skal gera ráð fyrir 1 bílastæði á 35 fermetra í opnum bílakjallara. Ef sýnt verður fram á með rökstuðningi að samnýting bílastæða sé möguleg getur fjöldi fermetra atvinnurýma orðið allt að 50 á hvert bílstæði. Gera skal ráð fyrir byggingarreit fyrir stækkaðan bílakjallara á Garðatorgi. Hámarks hæðafjöldi fjölbýlishúss skal vera 5 hæðir til að koma í veg fyrir áhrif skuggavarps á nærliggjandi byggð.
Bæta skal við 18 nýjum bílastæðum meðfram Vífilsstaðavegi í deiliskipulagi og skipulagsnefnd beinir því til Umhverfissviðs að útfærsla bílastæða framan við Garðatorg 5 og 7 sé löguð að gildandi deiliskipulagi og þar með fjölgað.
Skipulagsnefnd beinir því þar að auki til umhverfissviðs að lögð verði fram áætlun um aðgerðir til þess að dreifa betur nýtingu bílastæða í Miðbæ Garðabæjar og létta á álagi um miðjan dag eins og samgöngumat hefur sýnt fram á að sé orðið töluvert.
Byggingarreitur efstu hæðar syðsta hluta Garðatorgs 1 verði inndreginn að vestanverðu sem kemur í veg fyrir áhrif skuggavarps á Garðatorg 2. Fjöldi hæða þess hluta húss sem verður við hlið Hrísmóa 2 getur orðið 4 hæðir en þó ekki hærra en svo að komið sé í veg fyrir innsýn. Skipulagsnefnd vísaði tillögunni til auglýsingar í samræmi við 41.gr. og 1.mgr.43.gr.skipulagslaga. Halda skal almennan kynningarfund á meðan á auglýsingu stendur.
3. 1405080 - Afgreiðsla skipulagsnefndar - Móar, endurskoðað deiliskipulag.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar frá fundi 22. október 2025 varpandi tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Móum. Tillagan er endurskoðun á því deiliskipulagi sem uppbygging svæðisins studdist við en bætt er við ýmsum ákvæðum sem lagar deiliskipulagið að þeim kröfum sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í samtímanum.
Deiliskipulag þetta nær yfir göturnar Lyngmóa, Kjarrmóa, Hrísmóa og Kirkjulund 2 og 4, saman mynda þær Móa. Móarnir afmarkast við Lyngmóa til norðvesturs og norðurs, við Hofstaðabraut til austurs og við göturnar Hrísmóa og Kirkjulund til suðurs.
Tillagan gerir ráð fyrir því að gatan Hrísmóar verði lokuð framan við Hrísmóa 13 að vestanverðu og framan við Hrísmóa 3 að austanverðu. Ný tenging komi frá Bæjarbraut norðan við Garðatorg 2 og þar yrði aðkoma að Miðbæ og að Hrísmóum 1, 6, 8 og 10.
Tillagan hefur verið forkynnt samhliða tillögu að breytingu deiliskipulags Miðbæjar og unnið hefur verið úr þeim ábendingum sem borist hafa.
Skipulagsnefnd vísaði tillögunni til auglýsingar í samræmi við 41.gr. og 1.mgr.43.gr.skipulagslaga. Halda skal almennan kynningarfund á meðan á auglýsingu stendur. Tillaga skal auglýst samhliða tillögu að breytingu deiliskipulags Miðbæjar.
4. 2510290 - Greining á rekstri málaflokks fatlaðs fólks í Garðabæ.
Lagt fram minnisblað velferðarsviðs vegna greiningar á rekstri málaflokks fatlaðs fólks hjá Garðabæ og tillögu að úrvinnslu verkefnisins.
Bæjarráð samþykkir að fela HLH ráðgjöf greiningarverkefnið sem fjármagnað verði með framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
5. 2510420 - Framlag ríkisins 2025 vegna barna með fjölþættan vanda.
Lagt fram til kynningar erindi Mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi framlag vegna barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir og eru vistuð utan heimilis á árinu 2025.
Bæjarráð vísar erindinu til frekari úrlausnar velferðarsviðs.
6. 2510460 - Bréf Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands varðandi ágóðahlutagreiðslu 2025, dags. 27.10.25.
Lagt fram bréf Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands þar sem fram kemur að ágóðahluti Garðabæjar fyrir árið 2025 er að fjárhæð kr. 1.810.000.
7. 2510439 - Bréf UMF Stjörnunnar varðandi afnot af íþróttahúsinu Mýrinni fyrir þorrablót 2026, dags. 27.10.25.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og vísar því til afgreiðslu bæjarstjóra.
8. 2510493 - Umsagnarbeiðni vegna umsóknar UMF Stjörnunnar um tímabundð áfengisleyfi fyrir villibráðakvöld körfuknattleiksdeildar
Lögð fram umsókn UMF Stjörnunnar um tímabundið áfengisleyfi í Miðgarði á villibráðakvöldi sem halda á 7. nóvember 2025. Bæjarráð gerir ekki fyrir sitt leyti athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00 

Til bakaPrenta